Erlent

Forstjóri NASA segir bænir eina ráðið gegn hættulegum loftsteinum

Charles Bolden forstjóri Geimvísindastofnunnar Bandaríkjanna NASA var ekki að skafa af því í svari sínu til bandarískrar þingnefndar sem vildi vita hvað hægt væri að gera ef stór loftsteinn ógnaði tilveru borgar á borð við New York.

Bolden sagði nefndarmönnum að eina ráðið sem hægt væri að grípa til væri að leggjast á bæn. Engin þjóð í heiminum, þar á meðal Bandaríkjamenn, geti komið í veg fyrir árekstur loftsteins á jörðina ef loftsteinn væri á annað borð á þeirri stefnu. Því séu bænir eina ráðið í augnablikinu.

NASA hefur fundið og fylgist með um 95% af öllum loftsteinum í grennd við jörðu sem eru yfir kílómetri að breidd. Loftsteinn af þeirri stærðargráðu gæti útrýmt mannkyninu ef hann rækist á jörðina.

Hinsvegar hafa aðeins 10% af þeim áætluðu 10.000 loftsteinum sem eru 50 metrar í þvermál fundist en steinn af þeirri stærð gæti lagt borg á borð við New York í eyði.

Þingnefndin kallaði Bolden á sinn fund í framhaldi af því að loftsteinn sem talinn var vera 17 metrar að breidd sprakk fyrr í vetur í grennd við borg í Úralfjöllum með þeim afleiðingum að yfir 1.500 manns slösuðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×