Erlent

Myrtu þrettán mánaða gamalt barn

Tveir drengir á táningsaldri hafa verið handteknir sakaðir um að hafa myrt þrettán mánaða gamalt barn í bænum Brunswick í Georgíufylki í Bandaríkjunum.

Drengirnir stöðvuðu móður sem var úti að ganga með barnið í vagni sínum á fimmtudag. Kröfðu þeir móðurina, Sherry West, um peninga en móðirin neitaði.

„Viltu að ég drepi barnið þitt?" segir West drengina hafa spurt sig og hún hafi grátbeðið þá um að gera það ekki. Annar táningurinn skaut fjórum skotum að West og hæfði eitt þeirra hana í fótinn. Þá gekk hann að barnavagninum og skaut barnið banaskoti í andlitið.

Hinn 17 ára De'Marquis Elkins er sakaður um morðið en nafn hins 14 ára félaga hans hefur ekki verið gefið upp þar sem hann er ekki lögráða.



De'Marquis Elkins.
Fimm ár eru liðin síðan West syrgði átján ára gamlan son sinn sem lét lífið af völdum hnífsstungu eftir rifrildi í New Jersey. Móðirin hefur því misst tvö börn sín á skömmum tíma í líkamsárásum.

„Það er ekki auðvelt að lifa með þessu. Ég er þó ánægð að lögreglan náði morðingjanum," sagði West við AP-fréttastofuna.

Lögreglan sýndi West andlitsmyndir af 24 ungum mönnum. West bar kennsl á eitt andlit sem reyndist sá sem lögreglan hafði þegar í haldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×