Erlent

Hálf milljón Sýrlendinga hefur flúið heimaland sitt

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
MYND/AP
Rúmlega fimmhundruð þúsund Sýrlendingar hafa nú flúið heimaland sitt en talið er að fjöldi sýrlenskra flóttamanna eigi eftir að tvöfaldast á næstu mánuðum.

Nærri tvö ár eru liðin frá því að uppreisnin í Sýrlandi hófst en á þeim tíma hefur rúm hálf milljón Sýrlendinga leitað til nærliggjandi landa og dvelur fólkið nú í flóttamannabúðum í Líbanon, Jórdan, Írak og Tyrklandi. Þar býr það við bágar aðstæður, skortur á mat og vatni er daglegt brauð sem og ofbeldi og kuldi.

Fjöldi sýrlenskra flóttamanna hefur sjöfaldast á síðastliðnum sjö mánuðum samkvæmt tölum frá flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna og talið er að flóttamennirnir verði rúm milljón áður en sumarið gengur í garð. Þetta samsvarar rúmlega þreföldum íbúafjölda Íslands.

Hjálparstofnanir sem hafa reitt sig á frjáls framlög eru fjárþurfi og hafa þær óskað eftir frekari fjárstyrk til að ráða við ástandið. Nágrannalönd Sýrlands hafa þurft að bera mikinn kostnað af flóttamönnunum, hann mun aukast til muna á næstunni og ekki er vitað hvort að ríkin geti ráðið við að hýsa alla þá sem þurfa á skjóli að halda næstu mánuði. Helstu ráðamenn landanna munu hittast á fundi í Líbanon síðar í þessum mánuði til að ræða stöðuna sem upp er komin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×