Erlent

33 áhorfendur slösuðust í Daytona

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Þrjátíu og þrír áhorfendur hið minnsta slösuðust, þar af tveir alvarlega, þegar tíu bíla árekstur varð í bandaríska NASCAR kappakstrinum í Daytona í gærkvöldi.

Ökuþórarnir voru á um tvöhundruð og áttatíu kílómetra hraða þegar einn þeirra missti stjórn á bíl sínum á lokametrum keppninnar í gær með þeim afleiðingum að hann og níu aðrir rákust saman. Braki rigndi yfir áhorfendur en einn bíllinn hafnaði á öryggisgirðingu. Logandi vélin kastaðist út og brenndi gat á girðinguna og þaut eitt hjólið undan bílnum í átt að áhorfendum.

Að minnsta kosti þrjátíu og þrír sem voru í áhorfendastúkunni slösuðust og voru fjórtán fluttir á sjúkrahús. Þar á meðal fjórtán ára drengur sem slasaðist alvarlega. Líðan hans er nú stöðug að sögn lækna. Þá hlaut fullorðinn maður lífshættulega höfuðáverka og undirgengst hann nú aðgerð.

Ökuþórarnir sem lentu í árekstrinum sluppu þó með skrekkinn en þeir hlutu minniháttar áverka. Það þykir ótrúleg mildi að ökuþórinn Kyle Larson hafi ekki slasast alvarlega því það var bíll hans sem hafnaði á girðingunni en framhluti bifreiðarinnar hreinlega rifnaði af.

Kappakstrinum verður áframhaldið í dag þrátt fyrir slysið en starfsmenn brautarinnar unnu hörðum höndum í nótt við hreinsunarstörf sem og að koma öryggisgirðingunni í upprunalegt horf.

Áreksturinn má sjá í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×