Erlent

Bakka út úr friðarviðræðum

þj skrifar
Hörð mótmæli brutust út í Pakistan í gær vegna sprengjuárása Bandaríkjamanna á vígamenn talibana.
Hörð mótmæli brutust út í Pakistan í gær vegna sprengjuárása Bandaríkjamanna á vígamenn talibana. Fréttablaðið/AP

Talibanahreyfingin í Pakistan aflýsti í gær friðarviðræðum við stjórnvöld þar í landi eftir að næstráðandi í þeirra hópi var ráðinn af dögum í sprengjuárás Bandaríkjamanna.

Waliur Rehman stýrði aðgerðum talibana í landamærahéraðinu Waziristan, en hann féll í árás ómannaðrar sprengjuvélar í fyrradag, en hann var eftirlýstur fyrir að hafa staðið fyrir árás þar sem sjö starfsmenn leyniþjónustunnar CIA voru ráðnir af dögum árið 2009. Talibanar, sem hafa það að markmiði að steypa stjórnvöldum í Pakistan fyrir fylgispekt við Bandaríkin, höfðu fyrr á árinu viðrað möguleika á friðarsamningum.

Talsmaður þeirra sagði hins vegar í gær að þeir teldu árásir Bandaríkjamanna vera gerðar með samþykki pakistanskra stjórnvalda og því hefðu þeir slitið friðarferlinu. Talibanar í Pakistan hafa síðustu ár staðið bak við fjölda mannskæðra árása, en eru taldir standa höllum fæti um þessar mundir. Árásir Bandaríkjamanna með ómönnuðum flaugum hafa verið afar umdeildar undanfarið og lofaði Barack Obama forseti á dögunum að meira gegnsæi yrði viðhaft varðandi notkun þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×