Erlent

Fjárlagaþverhnípið blasir við

John Boehner
John Boehner
Vonir hafa á ný dvínað um að lausn finnist á deilum repúblikana og demókrata um fjárlagaþverhnípið svonefnda í tæka tíð fyrir áramót.

John Boehner, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi repúblikana í deildinni, dró á miðvikudag málamiðlunartillögu sína til baka, þar sem hann hafði ekki nægan hljómgrunn fyrir henni í röðum eigin flokksmanna.

Um áramótin renna út lagaheimildir til nokkurra stórra útgjaldaliða á fjárlögum Bandaríkjanna. Um leið renna út lög um ýmsa skattafrádrætti, sem George W. Bush forseti setti á sínum tíma.

Nái flokkarnir ekki samkomulagi fyrir áramótin taka því sjálfkrafa gildi bæði skattahækkanir og niðurskurður á útgjöldum ríkisins. Þetta myndi að vísu bæta stöðu ríkissjóðs, en á hinn bóginn þykir fullvíst að þessar breytingar dragi jafnframt úr umsvifum í efnahagslífi Bandaríkjanna.

Þar með myndi kreppan frá 2008 dragast enn á langinn, með afleiðingum langt út fyrir landamæri Bandaríkjanna.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×