Erlent

Baðst samt ekki afsökunar

Taka í höndina á Hollande Frakklandsforseti gaf sér tíma til að heilsa upp á almenning í Algeirsborg.	fréttablaðið/AP
Taka í höndina á Hollande Frakklandsforseti gaf sér tíma til að heilsa upp á almenning í Algeirsborg. fréttablaðið/AP
„Ég viðurkenni þær þjáningar sem nýlendukerfið olli íbúum í Alsír,“ sagði François Hollande Frakklandsforseti í Algeirsborg í gær, þar sem hann var í opinberri heimsókn.

Hann baðst þó ekki afsökunar fyrir hönd Frakklands, eins og margir höfðu gert sér vonir um.

Hann dró þó ekkert undan og nefndi sérstaklega fjöldamorðin sem Frakkar frömdu í sjö ára stríði er lauk með endurheimtu sjálfstæði Alsírs árið 1962, eftir 132 ára hernám.

„Söguna verður að segja, jafnvel þótt hún sé sorgleg og jafnvel þótt hún sé sársaukafull fyrir bæði löndin okkar,“ sagði Hollande í ávarpi á þjóðþingi Alsírs, og sagði Alsíringa hafa mátt búa við „gífurlega ranglátt og grimmilegt nýlendukerfi“ þau 132 ár sem Frakkar réðu í landinu.

Hann sagði jafnframt að nú hæfist nýtt tímabil í samskiptum ríkjanna. Meðal annars hefur verið ákveðið að frönsku bílaverksmiðjurnar Renault hefji starfsemi í Alsír í samstarfi við alsírsk fyrirtæki.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×