Erlent

Leyniréttarhöldum hafnað

Nick Clegg Í ræðustól á landsfundi Frjálsra demókrata.nordicphotos/AFP
Nick Clegg Í ræðustól á landsfundi Frjálsra demókrata.nordicphotos/AFP
Fulltrúar á landsfundi flokks frjálsra demókrata í Bretlandi höfnuðu frumvarpi um leyniréttarhöld, sem breska stjórnin hugðist fá þjóðþingið til að samþykkja.

Þetta er nokkuð áfall fyrir Nick Clegg, formann flokksins og aðstoðarforsætisráðherra í ríkisstjórn íhaldsmannsins Davids Cameron.

Stjórnin taldi nauðsynlegt að veita dómstólum heimild til þess að láta réttarhöld fara fram með leynd, í þeim tilvikum þar sem leyniþjónustan telur sér ekki fært að gefa upplýsingar, sem hún hefur aflað sér um sakborninga, án þess að stofna öryggi leyniþjónustumanna eða breska ríkisins í hættu. Flokksfélagar Cleggs töldu enga ástæðu til að leyfa slík réttarhöld.

Í ræðu sinni á lokadegi landsfundarins í gær hvatti Clegg flokksfélaga sína engu að síður til að standa þétt við bakið á ríkisstjórninni, þrátt fyrir harða gagnrýni almennings og stjórnarandstöðunnar á strangar sparnaðaraðgerðir.

„Fyrir kosningarnar var almennt talið að við gætum ekki tekið stökkið frá því að vera í stjórnarandstöðu yfir í að sitja í stjórn," sagði Clegg. „Tveimur árum síðar standa gagnrýnendur okkar forviða." - gb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×