Erlent

Ógnarhernaður gegn almenningi

Ómannað árásarflugfar Bandaríkjaher hefur í auknum mæli notað flugtæki af þessu tagi í Pakistan, Jemen og Sómalíu.nordicphotos/AFP
Ómannað árásarflugfar Bandaríkjaher hefur í auknum mæli notað flugtæki af þessu tagi í Pakistan, Jemen og Sómalíu.nordicphotos/AFP
Bandaríkjaher hefur síðustu árin í æ meiri mæli notað ómönnuð flugför til að varpa sprengjum á fólk í Pakistan. Tilgangurinn er sagður sá að drepa helstu leiðtoga hryðjuverkamanna, en árangurinn er umdeildur.

Tveir hópar fræðimanna við bandaríska háskóla segja Bandaríkjastjórn ekki segja sannleikann um þann skaða sem þessar árásir valda.

„Bandarískir stjórnmálamenn og bandarískur almenningur geta ekki haldið áfram að hunsa vísbendingar um þann skaða, sem almenningur verður fyrir, og þau þveröfugu áhrif sem þessi hnitmiðuðu mannvíg og skotflaugaárásir hafa í Pakistan," segir í nýútkominni skýrslu fræðimannanna, sem starfa við lögfræðideildir háskólanna í Stanford og New York.

Eftir níu mánaða rannsóknir, sem gerðar voru bæði á vettvangi í Pakistan og með viðtölum við fórnarlömb, vitni og sérfræðinga, segja fræðimennirnir engan vafa leika á því að árásirnar hafi kostað hundruð almennra borgara lífið á síðustu árum, þar á meðal 176 börn.

Þótt árásirnar hafi að öllum líkindum kostað fleiri hryðjuverkamenn lífið en saklausa borgara, þá eru háttsettir liðsmenn hryðjuverkasamtaka einungis lítið brot af þeim sem látist hafa.

Að minnsta kosti er fátt sem styður fullyrðingar bandarískra stjórnvalda um að ómönnuðu flugförin séu nákvæm og örugg eða að þau bæti öryggi Bandaríkjamanna með einhverjum hætti. Þvert á móti bendi flest til að andstaða almennings við Bandaríkin hafi vaxið og staða hryðjuverkamanna jafnvel styrkst.

Þar að auki séu þessi ómönnuðu flugför stöðug ógn í lífi almennings á þeim svæðum í Pakistan þar sem þau eru notuð.

„Tilvist þeirra skelfir karla, konur og börn, vekur kvíða og veldur sálrænum áföllum í samfélagi almennra borgara," segir í skýrslunni. „Þau sem búa undir skotflaugunum hafa stöðugar áhyggjur af því að hvenær sem er megi búast við mannskæðri árás, og gera sér grein fyrir því að þau hafa enga möguleika til að verjast."

gudsteinn@frettabladinu.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×