Erlent

Marijúana löglegt í Washington ríki frá miðnætti

Á miðnætti í nótt verður það löglegt að nota marijuana í Washington ríki. Þetta er fyrsta ríki Bandaríkjanna til að lögleiða marijúana en það hefur verið löglegt að nota fíkniefnið til lækninga í Washington frá árinu 1998.

Íbúar Washington ríkis samþykktu að lögleiða marijúana í atkvæðagreiðslu sem haldin var samhliða forsetakosningunum þar í landi í síðasta mánuði. Slíkt gerðu raunar einnig íbúar í Colorado.

Í löggjöfinni sem tekur gildi í Washington á miðnætti, að staðartíma, segir að löglegt verði að hafa allt að eina únsu eða rúmlega 28 grömm af marijúna á sér án þess að slíkt teljist lögbrot. Hinsvegar er enn bannað að reykja marijúana á opinberum stöðum og það verður áfram ólöglegt að kaupa það í ríkinu í eitt ár.

Mikil umræða hefur skapast um ákvörðun íbúa Washington og Colorado að lögleiða marijúana því fíkniefnið er áfram ólöglegt samkvæmt alríkislögum.

Þetta áréttaði Jenny Durkan ríkissaksóknari í Washington í samtali við dagblað í Seattle. Marijúana væri ólöglegt fíkniefni alveg sama hvað lög um það væru sett í ríkinu. Marijúana yrði í sama flokki og kókaín, heróín og amfetamín þar til bandaríska þingið samþykkti annað, að sögn Durkan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×