Enski boltinn

Roque Santa Cruz lánaður til Malaga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Sóknarmaðurinn Roque Santa Cruz hefur verið lánaður til spænska liðsins Malaga til loka tímabilsins. Hann hefur lítið sem ekkert fengið að spila hjá liði sínu, Manchester City.

Santa Cruz kom til City árið 2009 fyrir sautján milljónir punda og gerði þá fjögurra ára samning. Mark Hughes var þá stjóri City en eftir að Roberto Mancini tók við undir lok þess árs fékk hann sífellt færri tækifæri með liðinu.

Hann spilaði aðeins 20 leiki með City en var í láni hjá Blackburn í hálft tímabil og svo hjá Real Betis á Spáni allt síðasta tímabil.

Santa Cruz var svo orðaður við QPR í sumar en þar er áðurnefndur Hughes við stjórnvölinn. Ekkert varð úr því og hefur hann nú verið lánaður til Malaga sem leikur í Meistaradeild Evrópu í vetur.

Samningur Santa Cruz við City rennur út í lok tímabilsins og því ljóst að hann hefur spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×