Erlent

Spennan vex með hverjum degi

Egypska óeirðalögreglan beið átekta í gær fyrir utan forsetahöllina meðan stjórnarandstæðingar og stuðningsmenn forsetans söfnuðust saman.
Egypska óeirðalögreglan beið átekta í gær fyrir utan forsetahöllina meðan stjórnarandstæðingar og stuðningsmenn forsetans söfnuðust saman. nordicphotos/AFP
Jafnt andstæðingar sem stuðningsmenn Mohammeds Morsi Egyptalandsforseta flykktust út á götur og torg Kaíró í gær og var óttast að til átaka kæmi.

Óeirðalögreglan stóð vörð um forsetahöllina, en fljótlega tókst hópi andstæðinga forsetans að rjúfa raðir lögreglunnar.

Þá gengu hópar herskárra íslamista, sem koma úr röðum Bræðralags múslíma og segjast styðja Morsi forseta, hart fram gegn andstæðingum forsetans. Þeir fóru saman í hópum, ógnuðu fólki og settu upp eins konar fangelsi þar sem þeir yfirheyrðu og misþyrmdu stjórnarandstæðingum sem þeir tóku höndum.

Mikil spenna er í Egyptalandi þessa dagana vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, sem haldin verður á laugardaginn. Þá tók Morsi forseti í gær ákvörðun um að fresta um mánuð efnahagsaðgerðum, sem áttu meðal annars að felast í skatta- og gjaldahækkunum. Jafnframt fór Morsi fram á það við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að inngripi hans í egypsk efnahagsmál yrði frestað.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×