Erlent

Von á fimm þúsund gestum í jarðarförina

Jacintha Saldanha, hjúkrunarfræðingurinn sem svipti sig lífi eftir að hafa orðið fyrir barðinu á símahrekk ástralskra útvarpsmanna, verður jörðuð á morgun en lík hennar kom til Indlands í nótt. Búist er við yfir fimm þúsund manns í jarðarförina.

Saldanha tók við símtalinu frá úvarpsmönnunum, sem sögðust vera Elísabet Bretlandsdrottning og Karl Bretaprins. Þau óskuðu eftir upplýsingum um líðan Katrínar Middleton, eiginkonu Vilhjálms prins, sem ber barn undir belti og dvaldi á spítala Játvarðs sjöunda vegna morgunógleði. Saldanha sendi útvarpsmennina áfram á annan hjúkrunarfræðing sem sagði þeim frá því hvernig hertogaynjunni leið.

Þremur dögum síðar fannst hún látin en svo virðist sem hún hafi tekið hrekkinn svo nærri sér að hún svipti sig lífi.

Lík hennar var flutt til borgarinnar Manglore á Indlandi í nótt en hún er ættuð frá Indlandi og hafði starfað í Englandi í tíu ár. Ráðherrar landsins og stjórnmálamenn í borginni tóku á móti fjölskyldu hennar á flugvellinum í nótt.

Að sögn breska ríkisútvarpsins hefur dauði Saldönhu vakið mikla athygli á Indlandi, sérstaklega í bænum þar sem hún ólst upp. Í síðustu viku var haldin athöfn í minningu hennar. Spítalinn í bænum þar sem hún lærði hjúkrunarfræði hefur gefið það út að hennar verður minnst um ókomna tíð á spítalanum.

Jarðarförin fer fram á morgun og er búist við að yfir fimm þúsund manns mæti í kirkjuna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×