Enski boltinn

Stoke bauð Shawcross sex ára samning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Forráðamenn Stoke vilja tryggja að varnarmaðurinn Ryan Shawcross verði áfram í herbúðum félagsins og hafa boðið honum nýjan sex ára samning.

Viðræður hafa átt sér stað síðustu vikurnar um nýjan samning og greina enskir fjölmiðlar frá því að félagið hafi lagt fram nýtt tilboð í gær.

Núverandi samningur Shawcross rennur út eftir átján mánuði en víst þykir að nýi samningurinn muni tryggja honum umtalsverða launahækkun.

Hann hefur lengi verið orðaður við önnur lið, svo sem Tottenham, Chelsea og Manchester United.

„Hann hefur bætt sig með hverju árinu," sagði Tony Pulis, stjóri Stoke, um Shawcross. „Hann er 25 ára gamall og ég held að það séu enn 2-3 ár í að hann nái að toppa. Við höfum ekki séð það besta frá honum enn sem komið er."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×