Erlent

Borgar milljarða sekt

Einn stærsti banki heims auðveldaði fíkniefnabarónunum og hryðjuverkasamtökum peningaþvætti.
Einn stærsti banki heims auðveldaði fíkniefnabarónunum og hryðjuverkasamtökum peningaþvætti. nordicphotos/AFP
Breski bankinn HSBC hefur fallist á að greiða bandarískum stjórnvöldum 1,9 milljarða dala, eða ríflega 240 milljarða króna, til að komast hjá réttarhöldum vegna ásakana um peningaþvætti. Þetta er hæsta sekt sem banki hefur nokkru sinni greitt.

Rannsókn bandarískrar þingnefndar hefur leitt í ljós að bankinn auðveldaði fíkniefnabarónum í Mexíkó peningaþvætti með því að millifæra fé frá Mexíkó til Bandaríkjanna í gegnum mexíkóska bankann HSMX.

Einnig hafi bankinn auðveldað hryðjuverkamönnum í Mið-Austurlöndum að þvætta peninga, auk þess sem bankinn hafi átt í viðskiptum við Íran, Líbíu, Súdan og Búrma og þar með brotið gegn alþjóðlegum refsiaðgerðum á hendur þessum ríkjum.

Bankinn hefur viðurkennt að hafa ekki haft nógu strangar reglur til að hindra peningaþvætti og ítrekaði í gær afsökunarbeiðni vegna þess:

„Við föllumst á ábyrgð vegna fyrri mistaka okkar,“ segir Stuart Gulliver bankastjóri. „Við höfum sagt að okkur þyki þetta mjög leitt, og segjum það enn og aftur.“- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×