Erlent

Slegist um hótelherbergi í Serbíu vegna ótta um heimsendi

Slegist er um öll laus hótelherbergi í grennd við dularfullt fjall í Serbíu. Þeir sem að panta herbergin í gríð og erg telja að heimsendir sé í nánd, nánar tiltekið hann verði þann 21. desember þegar 5.125 ára gömlu dagatali Mayanna lýkur.

Fjall þetta sem heitir Rtanj, og er um 1.700 metrar á hæð, er í laginu eins og pýramídi en það tilheyrir Karpatafjöllunum. Þeir sem telja að heimsendir sé í nánd trúa því að fjallið sé í raun pýramídi sem geimverur reistu fyrir mörgum þúsundum ára síðan. Sem slíkur mun hann bjarga þeim frá grimmum örlögum heimsendisins með sérstakri orku sinni.

Breski vísindaskáldsagnahöfundurinn Arthur C. Clark skrifaði ítrekað um þetta fjall, sagði það vera sérstaka orkustöð og kallaði það raunar nafla heimsins.

Í frétt blaðsins Telegraph um málið er rætt við Obrad Blecic einn af hótelstjórunum sem rekur hótel í grennd við fjallið. Hann segir að sér berist allt að 500 fyrirspurnir á dag um laus herbergi og að yfirleitt séu það heilu fjölskyldurnar sem vilja komast á hótelið fyrir 21. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×