Erlent

Fann áður óþekkta ævintýrasögu eftir H.C. Andersen

Fundist hefur áður óþekkt ævintýrasaga eftir danska rithöfundinn H.C. Andersen. Handritið að sögunni fannst í kassa á Landskjalasafni Fjónar í Óðinsvéum.

Þessi fundur hefur vakið mikla athygli innan sem utan Danmerkur og er m.a. greint frá handritinu á vefsíðu BBC. Það var sagnfræðingur sem fann handritið en sagan ber nafnið Tólgarkertið (Tællelyset).

Um er að ræða sögu þar sem dauður hlutur hegðar sér eins og lifandi persóna en það var einmitt eitt af höfundareinkennum H.C. Andersen að skirfa slíkar ævintýrasögur. Þessi saga fjallar um fátækt og skítugt tólgarkerti sem þráir það heitast að gefa frá sér ljós. Kertið er með böggum hildar þar til það kemst í samband við kveikju sem lætur draum þess rætast.

Handrit þetta fannst í október s.l. en síðan hafa sérfræðingar rannsakað það náið. Þeir eru sammála um að að H.C. Andersen hafi skrifað þessa ævintýrasögu.

Ejnar Stig Askgaard sérfræðingur í verkum skáldsins hjá Borgarsafni Óðinsvéa segist í engum vafa um að H.C. Andersen hafi skrifað þessa sögu. Að öllum líkindum sé um fyrstu söguna sem H.C. Andersen skrifaði að ræða og að hún sé skrifuð á námsárum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×