Erlent

Pippa Middleton fær tilboð um að koma fram í sjónvarpsþætti

Pippu Middleton, systur Katrínar hertogaynjunnar af Cambridge, hafa verið boðnar yfir 70 milljónir króna fyrir að koma reglulega fram í vinsælum sjónvarpsþætti í Bandaríkjunum.

Um er að ræða þáttinn The Today Show sem sýndur er á NBC stöðinni. Pippa myndi aðeins þurfa að koma fram 20 sinnum í þættinum á næsta ári og ætlunin er að hún verði einhverskonar konunglegur fréttaritari sem fjalli um ýmsa atburði sem tengjast konungsfjölskyldunni og breska aðlinum.

Forráðmenn NBC telja að ólétta Katrínar Middleton muni valda því að áhorf á þáttinn muni stóraukast ef systir hennar kemur þar fram. Þeir munu þar að auki hafa lofað Pippu að öll atriðin með henni yrðu tekin upp fyrirfram til að forðast mistök í beinni útsendingu þessa daglega þáttar.

Fleiri hafa áhuga á að fá Pippu í sjónvarpsþátt. Einn af dómurum í dansþáttunum Strictly Come Dancing á BBC segir að hann vilji fá Pippu í þáttinn. Hún sé með stórkostlega þjóhnappa og myndi líta æðislega út í þessum efnislitlu kjólum, að því að dómarinn segir í samtali slúðurblaðið Daily Star.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×