Erlent

Víkingarnir ræktuðu kannabis fyrir 1.300 árum síðan

Forfeður okkar, víkingarnir í Noregi, ræktuðu kannabisplöntur eða hamp fyrir 1.300 árum síðan.

Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar á sýnum frá fornleifauppgreftri í Noregi sem legið hafa óhreyfð í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn í yfir hálfa öld.

Um er að ræða sýni frá járnaldarbýli í Vestur-Agder í Noregi og eru þau frá árunum 650 til 800 eftir Krist.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ummerki um hamp finnast í Noregi frá þessu tímabili. Hingað til hafa hinsvegar aðeins verið um lítilsháttar leifar eins og frjókorn að ræða.

Fjallað er um málið á danska vísindavefnum. Þar segir að rannsóknin leiði í ljós að ekki hafi verið um nýtingu á villtum hampplöntum að ræða heldur skipulagða ræktun þeirra.

Það er þó næsta víst að víkingarnir notuðu hampinn ekki til að komast í vímu heldur til þess að búa til reipi og textílverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×