Erlent

Gervitungl munu skella á tunglinu í kvöld

Félagarnir Ebb og Flow að störfum.
Félagarnir Ebb og Flow að störfum. MYND/AP
Tvö gervitungl munu mæta örlögum sínum í kvöld en þá munu vísindamenn NASA stýra þeim í átt að fjalli á myrku hlið tunglsins.

Gervitunglin, Ebb og Flow, hafa aflað þýðingarmiklum gögnum um tunglið en frá því í september árið 2011 hafa þau kannað þyngdarsvið þess. En dagar þeirra eru taldir enda eru eldsneytisgeymar þeirra nær tómir.

Í kvöld munu Ebb og Flow hverfa bakvið tunglið og skella á tunglinu á rúmlega sex þúsund kílómetra hraða á klukkustund. Áreksturinn verður vafalaust tilkomumikill en því miður er ómögulegt fyrir okkur hér á jörðu niðri að verða vitni að honum.

Samkvæmt upplýsingum frá NASA er áreksturinn liður í síðustu tilraunum gervitunglanna en eldsneytisnotkun þeirra á síðustu metrunum mun hjálpa vísindamönnum að þróa sparneyttari gervitungl.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem NASA grípur þessa ráðs en á síðustu árum hefur stofnunin engu að síður reynt að farga rusli sínu með umhverfisvænni hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×