Erlent

Þvertekur fyrir að hafa notað mannabein í kynferðislegum tilgangi

Þessi beinagrind fannst á heimili konunnar í september.
Þessi beinagrind fannst á heimili konunnar í september. MYND/AFP
Héraðsdómurinn í Gautaborg mun í dag kveða upp dóm yfir 37 ára gamalli konu sem ákærð var fyrir vörslu á mannabeinum og að hafa raskað ró hinna látnu. Við aðalmeðferð í málinu hélt saksóknari því fram að konan hefði notað beinin í kynlífsathöfnum.

Konan var handtekinn í september síðastliðnum. Lögreglumenn fundu sjö hauskúpur á heimili hennar ásamt öðrum beinum. Konan á yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi verði hún fundin sek.

Á heimili hennar fundust myndbönd þar sem náhneigð er stunduð. Á meðal gagna í málinu eru einnig ummæli sem hún hafði um líkhneigð á veraldarvefnum. Þar sagði hún að maður hennar gæti fullnægt þörfum sínum og skipti þar litlu hvort að hann væri lífs eða liðinn.

Konan hefur viðurkennt að hafa átt beinin en þvertekur fyrir að hafa brotið lög.

„Ég hef sannarlega áhuga á náhneigð. En sá áhugi er ekki af kynferðislegum toga," sagði konan í viðtali við Gautaborgspóstinn í dag.

Konan hefur ítrekað haldið því fram að beinin hafi ekki verið notuð í kynferðisathöfnunum. Þvert á móti sé áhugi hennar á hinum látnu aðeins fræðilegur. Þá segist konan hafa mikinn áhuga á beinafræði og réttarlæknisfræði.

„Ég geri mér grein fyrir því að það hljómar fáránlega en mannabein eru áhugamál mitt," sagði konan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×