Erlent

Stjórnmálamaður dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot

Rune Øygard, einn af þekktustu sveitarstjórnarmönnum Verkamannaflokksins í Noregi, var í morgun dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stúlku. Svo virðist sem SMS-skeyti og Skype-samtöl á milli þeirra hafi orðið til þess að hann hafi verið sakfelldur.

Stúlkan er í dag sextán ára gömul en þegar brotin gegn henni áttu sér stað var hún á aldrinum þrettán til fimmtán ára. Øygard neitaði sök við aðalmeðferð málsins en viðurkenndi þó að hafa klæmst við stúlkuna á samskiptaforritinu Skype og í SMS-skilaboðum. Dómari taldi sannað að hann hafi bortið gegn stúlkunni heima hjá sér, í sumarhúsi og á ferðalögum í nokkrum bæjum í Noregi. Hann leit meðal annars til þess að framburður stúlkunnar hafi verið trúverðugur frá byrjun.

Þá segir í dómnum að þegar stúlkan eignaðist kærasta og vildi slíta sambandi sínu við Øygard hafi hann orðið reiður og öfundsjúkur.

Það voru foreldrar stúlkunnar sem kærðu Øygard í september í fyrra og hóf lögreglan strax rannsókn á málinu. Þá var Øygard oddviti í sveitarfélaginu Vågå og neitaði hann að segja af sér eftir að málið kom upp. Hann fór hinsvegar í veikindarleyfi eftir að ákæran var gefin út, en eftir að hann viðurkenndi í aðalmeðferðinni að hafa klæmst við stúlkuna, var honum veitt lausn frá embætti.

Hann var dæmdur til að greiða stúlkunni um þrjár og hálfa milljón í miskabætur.

Øygard er einn þekktasti sveitarstjórnarmaður Verkamannaflokksins í Noregi. Árið 2007 lýsti Jens Stoltenberg, forsætisráðherra, honum sem sinni fyrirmynd og pólitískum læriföður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×