Erlent

Kim Jong Un minnist föður síns - nýr erfingi á leiðinni?

Kim Jong Un ásamt eiginkonu sinni og háttsettum ráðamönnum í Norður-Kóreu.
Kim Jong Un ásamt eiginkonu sinni og háttsettum ráðamönnum í Norður-Kóreu. MYND/AFP
Norður-Kóreumenn minntust fyrrverandi leiðtoga síns á hádegi í dag. Ár er liðið frá því að Kim Jong Il lést af völdum hjartaáfalls í höfuðborginni Pyongyang.

Sonur hans, Kim Jong Un, tók við embættinu. Hann stjórnaði minningarathöfn um föður sinn í dag. Allir helstu ráðamenn í Norður-Kóreu sóttu athöfnina.

Lík Kim Jong Il var smurt og liggur það nú í Kumsusan leghölllinni í norðausturhluta Pyongyang. Talið er að almenningi verði hleypt inn í grafhýsið í dag.

Kim Jong Un hefur staðið í ströngu síðustu vikur. Eftir nokkar misheppnaðar tilraunir tókst Norður-Kóreumönnum loks að skjóta gervitungli á sporbraut um jörðu. Fréttastofan Reuters greindi frá því að Kim Jong Un hefði fagnað skotinu með því að reykja sígarettu í stjórnstöð Norður-Kóresku geimvísindastofnunarinnar.

Þá hafa einnig borist fregnir af því að eiginkona hans, Ri Sol-ju, sé þunguð.

Kim Jong Un fagnaði velheppnuðu geimskoti með sígarettu.MYND/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×