Erlent

Bandaríkjamenn hamstra skotvopn í kjölfar fjöldamorðanna

Bandaríkjamenn hamstra nú skotvopn í miklum mæli vegna ótta um að skotvopnalöggjöf landsins verði breytt í framhaldinu af fjöldamorðunum í bænum Newtown.

Í umfjöllun Fox sjónvarpsstöðvarinnar segir að kaup á skotvopnum hafi aukist verulega í kjölfar fjöldamorðanna. Það er einkum keypt mikið af hríðskotarifflum á borð við AR-15 Bushmaster en það er sama vopnið og Adam Lanza notaði við fjöldamorðin. Auk þess er mikið keypt af skotfærum í þennan riffil, sem og stærri skotmagasín sem geta geymt fleiri kúlur.

Í Colorado er ástandið þannig að hefðbundin bakgrunnskönnun á vopnakaupendum sem venjulega tekur nokkrar mínútur tekur nú 12 tíma vegna fjöldans sem kaupir vopn. Bara á laugardag voru 4.200 einstaklingar kannaðir og hafa aldrei verið fleiri á einum degi í sögu ríkisins.

Bandaríska alríkislögreglan FBI mun ekki birta nýjar tölur um vopnakaup í landinu fyrr en í næsta mánuði. Í lauslegra könnun Fox stöðarinnar í Ohio og Kaliforníu hinsvegar er það sama upp á teningnum og í Colorado.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×