Erlent

Óeirðir vegna ásakana um lauslæti í Gautaborg

Skjáskot úr myndbandinu sem finna má á vef VG.
Skjáskot úr myndbandinu sem finna má á vef VG.
Hundruð unglinga veittu unglingsstúlku eftirför í Gautaborg í morgun og lömdu, eftir að hún var sökuð um að hafa birt nöfn og myndir af fjölda stúlkna úr grunnskóla, þar sem þær voru sagðar lauslátar. Lögreglan handtók hátt í 30 ungmenni vegna málsins en þeir yngstu sem tóku þátt í óeirðunum voru 13 ára gamlir. Atvikið átti sér stað skammt frá skólanum sem krakkarnir stunda.

Meðal annars birtust myndir á Instagram af stúlkum og þær sagðar hafa stundað kynlíf með fjölda drengja. Í kjölfarið skipulagði hópur ungmenna, sem voru nafn- og myndgreindir, að hefna sín á stúlkunni sem þau töldu standa á bak við ásakanirnar. Og ekki stóð á mætingunni, því hundruð unglinga komu saman, og réðust meðal annars á stúlku, sem er sautján ára gömul - og sögð standa á bak við myndbirtinguna - með ofbeldi.

Lögreglan kom á vettvang en ungmennin brugðust þá hin verstu við og köstuðu grjóti og snjóboltum í laganna verði. Stúlkunni sem er sögð standa á bak við myndbirtinguna, var bjargað af lögreglu, eftir að múgurinn hafði tuskað hana til. Hún reyndist þó ekki hættulega slösuð, en var mjög brugðið eftir atvikið. Hún er þegar komin með lögfræðing vegna málsins.

Samkvæmt norska fréttavefnum VG neitar stúlkan að hafa staðið á bak við myndbirtinguna.

Norskri fjölmiðlar ræddu við nokkra unglinga sem tóku þátt í óeirðunum, en þar sagði einn piltur að hann vildi einfaldlega hefnd. Ein stúlka sagði systir sín hefði sýnt sér mynd af henni þar sem hún var kölluð „hóra" og það hafi verið sárt að upplifa slíkt.

Skólinn verður lokaður á morgun af ótta við önnur uppþot. Að minnsta kosti 27 ungmenni voru handtekin vegna málsins.

Hægt er að hofa á myndband af árásinni á vef VG hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×