Erlent

Lögregla og tollur náðu 24 kílóum af heróíni í Noregi

Lögreglan og tollurinn í Noregi hafa lagt hald á 24 kíló af heróíni sem reynt var að smygla til landsins í gegnum Svíþjóð.

Þetta er mesta magn af heróíni sem náðst hefur í Noregi frá árinu 2004. Til samanburðar má nefna að allt árið í fyrra var lagt hald á 11 kíló af heróíni í Noregi.

Í frétt í Verdens Gang um málið segir að á miðvikudag í síðustu viku hafi tollurinn í Svinesund fundið 10 kíló af heróíni á þýsku burðardýri. Sama dag voru Írani og Kosovo-Albani handteknir í Osló vegna málsins og hjá þeim fundust 4 kíló af heróíni í viðbót.

Nokkrum dögum seinna náði tollurinn og lögreglan í Osló og Akershus 10 kílóum af heróíni í einu úthverfa höfuðborgarinnar. Í þeirri aðgerð voru þrír Albanir handteknir ásamt öðru burðardýri.

Í Verdens Gang segir að götuverðmæti þessa heróíns nemi um 8,4 milljónum norskra króna eða um 190 milljónum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×