Erlent

Eru þetta bestu kvikmyndir ársins?

Undir árslok keppast gagnrýnendur við að birta topplista sína. Árið sem nú líður undir lok hefur sannarlega reynst vera mikið kvikmyndaár og fjölmargar stórgóðar myndir hafa litið dagsins ljós. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af þeim kvikmyndum sem hlotið hafa hvað mest lof frá gagnrýnendum í ár.

Lesendum Vísis er aftur á móti velkomið að nota umræðusvæðið hér fyrir neðan til að tjá skoðun sína.

Framar öðrum hafa tvær kvikmyndir hlotið hvað mest lof frá gagnrýnendum. Þetta eru The Master í leikstjórn Paul Thomas Anderson og Zero Dark Thirty eftir Kathryn Bigelow sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir leikstjórn á síðasta ári, fyrst kvenna, fyrir kvikmyndina The Hurt Locker.

The Master er tilvistarleg nálgun á trúarbrögð og þörf mannsins fyrir handleiðslu og traust. Stórleikararnir Philip Seymour Hoffman og Joaquin Phoenix fara með aðalhlutverk og eru þeir báðir orðaðir við Óskarsverðlaun fyrir leik sinn.

Í Zero Dark Thirthy er sagt frá leit Bandaríkjahers að Osama bin Laden, fyrrum leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda. Myndin hefur hlotið einróma lof.

Aðrar kvikmyndir sem vakið hafa athygli eru Moonrise Kingdom eftir Wes Anderson, The Cabin In The Woods eftir Joss Whedon, Looper eftir Rian Johnson og Life of Pi eftir Ang Lee.

Óskarsverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn þann 24. febrúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×