Enski boltinn

West Ham sigraði Chelsea | Tvö stig í þremur leikjum Benitez

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mata og Torres brostu í fyrri hálfleik en ekki þess síðari.
Mata og Torres brostu í fyrri hálfleik en ekki þess síðari. Nordicphotos/Getty
West Ham gerði sér lítið fyrir og lagði Chelsea að velli 3-1 á heimavelli sínum Boylen Ground í dag. Chelsea hafði forystu í hálfleik en þrjú mörk í síðari hálfleik tryggðu West Ham sætan sigur.

Gestirnir náðu forystunni á 13. mínútu þegar Juan Mata skoraði eftir fallegan undirbúning landa síns Fernando Torres. Fyrsta mark Chelsea undir stjórn Rafael Benitez og útlitið gott.

Heimamenn jöfnuðu metin eftir stundarfjórðung í síðari hálfleik. Há sending Matt Jarvis barst inn á teig gestanna þar sem Carlton Cole hafði betur í baráttu við Branislav Ivanovic og skallaði knöttinn í netið. Ivanovic fannst á sér brotið og virtist varnarmaðurinn hafa ýmislegt til síns máls.

Markið gjörbreytti gangi leiksins. Juan Mata skaut í tréverkið úr aukaspyrnu en þá tóku heimamenn við. Fyrst skoraði Momo Diame eftir fínan undirbúning Carlton Cole á 86. mínútu áður en varamaðurinn Modibo Maiga fylgdi eftir skoti Matthew Taylor á lokamínútunni.

Fernando Torres fékk dauðafæri til að minnka muninn í viðbótartíma en skalli hans af markteig fór beint á Jaaskelainen í marki Hamranna. Spánverjanum virðist fyrirmunað að skora en um tólf klukkustundir eru liðnar frá síðasta marki Torres í búningi Chelsea.

West Ham lyfti sér upp í 7. sæti með sigrinum. Liðið hefur 22 stig en Chelsea situr í 3. sæti með 26. stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×