Erlent

Þúsundir gæddu sér á Stollen kökunni

Þúsundir komu saman í miðborg Dresden í Þýskalandi í gær til að taka þátt í hátíð sem sérstaklega er tileinkuð Stollen kökunni víðfrægu.

Íbúar Dresden í Þýskalandi eru stoltir af Stollen kökunni en sagan segir að hún hafi fyrst verið bökuð fyrir hirðina í Saxlandi árið 1427. Í dag er kakan ómissandi hluti af jólunum hjá Þjóðverjum en frægð hennar hefur einnig borist til annarra landa.

Þúsundir gesta tóku þátt í nítjándu Stollen kökuhátíðinni sem haldin var í Dresden í gær. Bakarar í borginni tóku sig til og bökuðu risastóra Stollen köku- þrjú tonn að þyngd - til að tryggja að allir gætu fengið bita.

Stollen kökur voru upprunalega þurrar og bragðlausar þar sem kaþólska kirkjan á miðöldum bannaði fólki að borða smjör á aðventu. Þýskir greifar fengu Páfa til að aflétta þessu banni árið 1490 og fyrir vikið varð Stollen kakan miklu sætara og bragðmeiri - sem skýrir eflaust vinsældir hennar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×