Enski boltinn

Villa Boas vill aðgerðir gegn stuðningsmönnum Lazio

Andre Villas Boas.
Andre Villas Boas. Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Tottenham, vill að UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, rannsaki hegðun stuðningsmanna ítalska liðsins Lazio. Tottenham og Lazio mættust í gærkvöld í Evrópudeildinni í Róm og telur Villas-Boas að stuðningsmenn Lazio hafi farið yfir strikið þegar þeir sungu níðsöngva sem tengjast gyðingahatri.

Lazio og Tottenham skildu jöfn, 0-0, í leiknum sem fram fór á ólympíuleikvanginum í Róm. UEFA sektaði Lazio um 5 milljónir kr. eftir fyrri leik þessara liða sem fram fór í september. Þar létu stuðningsmenn Lazio kynþáttahatur sitt í ljós í garð þrigga leikmanna Tottenham.

„Það þarf að rannsaka þetta mál. Það var gert síðast og UEFA brást hratt við. Við bíðum og sjáum til hver niðurstaðan verður," sagði Villas Boas á blaðamannafundi eftir leikinn í gær.

Stuðningsmenn Tottenham voru ekki öruggir í Rómarborg í aðdraganda leiksins og eftir leik. Alls slösuðust um 10 stuðningsmenn enska liðsins eftir árásir í miðbæ Rómar. Tveir þeirra voru stungnir með hnífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×