Enski boltinn

Mata: Ég heyrði ekki hvað Clattenburg sagði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Juan Mata, leikmaður Chelsea, segir við enska fjölmiðla að hann hafi ekki heyrt hvað Mark Clattenburg, dómari, sagði í leik liðsins gegn Manchester United.

Clattenburg hefur verið sakaður um kynþáttaníð í garð John Obi Mikel, leikmann Chelsea. Enska knattspyrnusambandið hefur framkvæmt ítarlega rannsókn og skýrist það í næstu viku hvort hann verði kærður.

Upphaflega var fullyrt að Clattenburg hefði einnig látið óviðeigandi orð falla gagnvart Juan Mata en sjálfur segist Spánverjinn ekkert hafa heyrt.

„Ég heyrði ekkert en málið er til skoðunar hjá Chelsea og enska sambandinu. Ég endurtek að ég heyrði ekki neitt."

Mata var í viðtali hjá spænska blaðinu AS og sagði að hann hefði farið til Englands til að fá nýja áskorun.

„Það fór of vel um mig. Ég naut mín hjá Valencia en það koma upp stundir þar sem maður þarf á nýrri áskorun á halda og þá þarf maður að vera hugrakkur."

„Spænskir leikmenn eru mjög virtir í Bretlandi. Ég er oft spurður út í leikstíl spænska landsliðsins - eða Barcelona og Real Madrid."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×