Enski boltinn

Berbatov: Ég var ekki latur hjá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dimitar Berbatov segir að hann hafi gengið stoltur frá borði þegar hann fór frá Manchester United í sumar.

Berbatov var hjá United í fjögur ár og skoraði 57 mörk í 149 leikjum. Hann er nú á mála hjá Fulham.

„Ég gaf allt mitt til félagsins og getur enginn leyft sér að efast um mína frammistöðu, sérstaklega miðað við hvað ég fékk margar mínútur," sagði hann við enska fjölmiðla.

„Ég var markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2010-2011 og var aldrei sáttur við að vera á bekknum."

„Kannski þurfti ég að spila meira en ég sætti mig alltaf við ákvarðanir stjórans. Ég leit aldrei á mig sem stjörnu - bara sóknarmann sem var að vinna fyrir liðið."

Hann segist vera ánægður hjá Fulham þar sem hann hefur skorað þrjú mörk í fimm leikjum. „Fulham hefur mikinn metnað og fjölskyldan mín er ánægð í Englandi. Það réði mestu. Ég fékk líka tilboð frá Fiorentina en vildi alltaf vera áfram í ensku úrvalsdeildinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×