Enski boltinn

Chelsea skilaði hagnaði í fyrsta sinn í tíð Abramovich

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea skilaði í fyrsta sinn hagnaði síðan að Roman Abramovich keypti félagið árið 2003.

Þetta kom fram í ársskýrslu félagsins fyrir síðasta rekstrarár en því lauk þann 30. júní síðastliðinn.

Hagnaður félagsins var 1,4 milljón punda á þessum tíma eða um 287 milljónir króna. Velta félagsins var öllu meiri eða 255,7 milljónir punda - um 52,5 milljarðar króna.

Taprekstur var á félaginu árið á undan, alls um 67,7 milljónir punda eða tæplega 14 milljarðar króna, rétt eins og öll ár síðan að rússneski milljarðamæringurinn Abramovich festi kaup á félaginu.

Félagið segist vera í góðri stöðu fyrir nýjar reglur Knattspyrnusambands Evrópu um fjárhagslegt umhverfi knattspyrnufélaga. Samkvæmt þeim verða tekjur félagsins að standa undir rekstrinum.

Síðan að Abramovich keypti félagið af Ken Bates í júní 2003 hefur Chelsea unnið tíu stóra titla. Liðið er núverandi Evrópumeistari en hefur þrívegis orðið Englandsmeistari, fjórum sinnum bikarmeistari og tvívegis deildarbikarmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×