Enski boltinn

Drogba: Fyrsti kostur að vera áfram hjá Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Didier Drogba segir að hann hafi átt í löngum viðræðum við Chelsea um nýjan samning en að félagið hafi viljað fá nýtt blóð í leikmannahópinn.

Drogba fór frá Chelsea eftir að hafa tryggt félaginu sigur í Meistaradeild Evrópu í vítaspyrnukeppni. Hann gekk til liðs við Shanghai Shenhua í Kína.

Hann segir frá þeirri ákvörðun í viðtali við France Football. „Það var í forgangi hjá mér að vera áfram hjá Chelsea til að klára ferilinn minn þar. En félagið vildi fá nýtt blóð í leikmannahópinn," sagði Drogba.

„Við áttum í viðræðum í marga mánuði án þess þó að komast að niðurstöðu. Ég var með tilboð frá Shangai en hikaði og hikaði."

„Ég fór svo að ráði gamals þjálfara míns hjá Le Mans. Ég skrifaði niður kosti og galla þess að flytja til Kína á blað."

„Ég var búinn að ákveða mig fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni en var þó ekki búinn að skrifa neitt. Ég veit ekki hvernig ég hefði brugðist við hefðum við tapað leiknum."

„Sigurinn auðveldaði mér það að fara. Þetta var rétti tíminn."

Hann segir að það sé mögulegt að hann muni æfa með Chelsea til að halda sér í formi fyrir Afríkukeppnina á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×