Enski boltinn

Arsenal brenndi af vítaspyrnu í uppbótartíma | Öll úrslit dagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Giroud skoraði tvö fyrir Arsenal í dag.
Giroud skoraði tvö fyrir Arsenal í dag. Nordic Photos / Getty Images
Arsenal mátti sætta sig við 3-3 jafntefli við Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag þrátt fyrir að hafa fengið vítaspyrnu á fjórðu mínútu uppbótartímans. Everton og West Brom unnu bæði góða sigra í dag.

Mikel Arteta steig á punktinn en hann hafði gert sig sekan um mistök fyrr í leiknum þegar hann braut á leikmanni Fulham í eigin vítateig. Mark Schwarzer, markvörður Fulham, varði hins vegar vítaspyrnu Arteta og niðurstaðan því jafntefli.

Arsenal komst snemma í 2-0 forystu með mörkum þeirra Olivier Grioud og Lukas Podolski. En leikmenn Fulham gáfust ekki upp og jöfnuðu metin áður en fyrri hálfleikur var flautaður af. Dimitar Berbatov og Alexander Kacaniklic gerðu það en Berbatov lagði upp síðara markið.

Arteta braut svo á Bryan Ruiz í síðari hálfleik og skoraði Berbatov úr vítaspyrnunni. Giroud náði þó að jafna metin fyrir Arsenal aðeins tveimur mínútum síðar en þar við sat.

Fellaini og félagar fagna í dag.Nordic Photos / Getty Images
Everton vann góðan 2-1 sigur á Sunderland. Gestirnir komust yfir með marki Adam Johnson í fyrri hálfleik en Everton sneri leiknum sér í vil með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla í síðari hálfleik.

Fyrst skoraði Marouane Fellaini og hann lagði svo upp sigurmark leiksins fyrir Nikica Jelevic. Everton er enn í fjórða sæti deildarinnar með jafn mörg stig og West Brom, sem vann 2-1 sigur á Wigan á útivelli.

Billy Jones fagnar seinna marki West Brom en það skráðist sem sjálfsmark á Gary Caldwell.Nordic Photos / Getty Images
James Morrison kom West Brom yfir á 31. mínútu og liðið komst 2-0 yfir með sjálfsmarki Gary Caldwell. Arouna Kone minnkaði muninn fyrir Wigan en nær komust heimamenn ekki.

Stoke hafði betur gegn QPR, 1-0, með marki Charlie Adam en Southampton gerði 1-1 jafntefli við Swansea á heimavelli. Reading og Norwich skildu jöfn í markalausum leik en þetta var sjötta jafntefli Reading á tímabilinu.

Reading og QPR eru einu liðin í deildinni sem eru enn án sigurs. Þessi tvö lið ásamt Southampton eru í þremur neðstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×