Enski boltinn

Manchester City með flottan sigur á Tottenham

SÁP skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Manchester City vann frábæran sigur á Tottenham, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en liðið lenti 1-0 undir í fyrra hálfleik. Sergio Agüero og Edin Džeko skoruðu mörk City í leiknum.

Leikurinn fór heldur rólega af stað og liðin voru nokkuð lengi í gang. Manchester City var ívið sterkari aðilinn til að byrja með en það voru samt sem áður Tottenham sem skoruðu fyrsta mark leiksins.

Steven Caulker, leikmaður Tottenham, skallaði boltann í netið eftir frábæra aukaspyrnu frá Tom Huddlestone. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir gestina en leikmenn Manchester City líklegir til árangur með þeirri spilamennsku sem liðið sýndi. Þegar rúmlega hálftími var eftir af leiknum náði Sergio Agüero að jafna metin þegar hann fékk boltann innan vítateigs og afgreiddi boltann snyrtilega framhjá Brad Friedel í marki Tottenham.

Liðin sóttu bæði linnulaust næstu mínútur og fengu sín færi en það voru heimamenn sem náðu að tryggja sér stigin þrjú. Edin Džeko fékk þá boltann inn í vítateig og þrumaði honum yfir höfuðið á Friedel, frábær afgreiðsla og sigur heimamanna í höfn.

Džeko hafði rétt áður komið inná af varamannabekknum. Manchester City er eftir leikinn í öðru sæti deildarinnar með 25 stig, tveimur stigum á eftir grönnum sínum í Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×