Enski boltinn

Aðstoðardómarar Clattenburg lykilvitni í málinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Clattenburg.
Mark Clattenburg. Mynd/AP
Knattspyrnudómarinn Mark Clattenburg og ummæli hans við leikmenn Chelsea í leiknum á móti Manchester United um síðustu helgi eru nú til rannsóknar bæði hjá bæði enska knattspyrnusambandinu sem og lögreglunni í Lundúnum.

Chelsea kvartaði undan því að Clattenburg hafi í tvígang notað óviðeigandi orð gagnvart leikmönnum félagsins. Það er ekki búið að staðfesta það hvaða leikmenn um ræðir en enskir fjölmiðlar hafa nefnt þá John Obi Mikel og Juan Mata.

Graham Poll, fyrrverandi dómari, sagði í samtali við BBC að aðstoðardómarar Mark Clattenburg í leiknum væru lykilvitni í málinu því þeir hafa heyrt allt sem hann sagði nema ef að Clattenburg hafi haldið fyrir hljóðnemann.

„Hljóðnemi dómarans er opinn og aðstoðardómararnir heyra allt sem hann segir. Ef að um einhverja kynþáttafordóma var að ræða þá er ég viss um að aðstoðardómararnir muni greina frá því," sagði Graham Poll.

Aðstoðardómararnir Michael McDonough og Simon Long sem og fjórði dómarinn Michael Jones verða því yfirheyrðir í tengslum við rannsóknina. Dómarasamtökin í Englandi ætla að standa með Mark Clattenburg í þessu máli en hann mun samt ekki dæma leik um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×