Enski boltinn

Di Canio: Eins og kynlíf með Madonnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paolo Di Canio.
Paolo Di Canio. Mynd/Nordic Photos/Getty
Paolo Di Canio, stjóri Swindon, verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Swindon fær úrvalsdeildarlið Aston Villa í heimsókn í enska deildarbikarnum.

Di Canio dreymir að sjálfsögðu um sigur og býst við að sigurtilfinningin yrði eins góð og að stunda kynlíf með söngkonunni Madonnu.

Di Canio rifjaði um sigurmark sitt í bikarleik á móti Manchester United árið 2001 þegar hann lék með West Ham.

„Þegar ég skoraði þetta mark á móti United þá var einstakt að horfa í kringum sig og sjá 9000 stuðningsmenn West Ham fagna. Það var yndislegt að senda Manchester United út úr bikarnum. Það var eins og að stunda kynlíf með Madonnu og það mun örugglega fylgja því jafngóð tilfinning að slá Villa út í kvöld," sagði hinn litríki og umdeildi Paolo Di Canio við Daily Mail.

Swindon Town er í 7. sæti í ensku C-deildinni og hefur unnið 7 af 15 deildarleikjum sínum á tímabilinu. Liðið er hinsvegar þegar búið að slá Brighton & Hove Albion (3-0), Stoke City (4-3) og Burnley (3-1) út úr enska deildarbikarnum á þessu tímabili.

„Við höfum þegar gert frábæra hluti í þessari keppni og það verður magnað andrúmsloft á County Ground í kvöld," sagði Di Canio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×