Enski boltinn

Er John Terry á leið til Valencia?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Spænskur umboðsmaður hefur fullyrt að hann hafi átt í viðræðum við Valencia um þann möguleika að John Terry gangi til liðs við félagið.

Þetta kemur fram í fjölmiðlum á Spáni og Englandi. Samkvæmt Sky Sports hefur Valencia staðfest að nafn Terry sé uppi á borði hjá þeim eftir að spænskur umboðsmaður bauð félaginu leikmanninn.

Umboðsmaðurinn heitir Francois Gallardo og sagði í útvarpsviðtali á Spáni að Terry sé óánægður hjá Chelsea og hafi beðið um að yfirgefa félagið.

„Tilboðið liggur á borðinu. Leikmaðurinn verður samningslaus í júní og ætlar ekki að framlengja samning sinn við Chelsaea af hinum ýmsu ástæðum. Hann vill koma til Spánar," sagði Gallardo.

„Terry er að glíma við ýmis vandamál. Þeir eru að móðga hann og hann sættir sig ekki við það lengur. Hann bað um að fá að fara."

„Þetta hefur verið í gangi í fimmtán daga og tveir fundir hafa þegar átt sér stað. Samingurinn er tilbúinn - hann er til átján mánaða með möguleika á einu ári til viðbótar. Ég held að hann muni taka því."

Ef þetta reynist allt saman rétt er talið líklegt að Terry fari strax í janúar. Hann er nú að taka út fjögurra leikja leikbann með Chelsea sem hann fékk fyrir kynþáttaníð gagnvart Anton Ferdinand, leikmann QPR.

Chelsea hefur einnig refsað honum fyrir athæfið en ekki greint frá því í hverju sektin felist með nákvæmum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×