Enski boltinn

Di Matteo: Dómararnir eyðilögðu leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Di Matteo, stjóri Chelsea, var að vonum ósáttur eftir tapið á móti Manchester United á Stamford Bridge í gær. United vann leikinn 3-2 á rangstöðumarki Javier Hernandez og Chelsea endaði leikinn með níu menn inn á vellinum.

Branislav Ivanovic og Fernando Torres fengu báðir rautt spjald í leiknum en það var lítið hægt að segja við spjaldinu hans Ivanovic. Spjaldið hjá Torres var hinsvegar óskiljanlegt.

„Seinna gula spjaldið hans Tores var ekki rétt og sigurmarkið átti aldrei að standa. Það er synd að svona mistök ráði úrslitum í svona leik. Það er líka öruggt að dómarinn mun átta sig á að hann gerði mistök þegar hann sér þetta aftur í sjónvarpinu," sagði Roberto Di Matteo.

„Fernando klobbaði Jonny Evans og fékk spark í sköflunginn. Þetta var brot hvernig sem litið er á þetta og þeirra leikmaður átti að fá gult spjald en ekki okkar maður," sagði Di Matteo.

„Við erum gríðarlega vonsviknir með þetta. Mér fannst við vera líklegri til að skora sigurmarkið í stöðunni 2-2 því þeir voru brothættir á þeim tíma. Þetta er mikil synd því þetta var góður fótboltaleikur milli tveggja góðra liða og dómararnir eyðilögðu hann," sagði Di Matteo.

Það er hægt að sjá svipmyndir frá leiknum með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×