Enski boltinn

Enska knattspyrnusambandið kærir Ashley Cole

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole.
Ashley Cole. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ashley Cole, leikmaður Chelsea og enska landsliðsins, verður kallaður fyrir aganefnd enska sambandsins fyrir skrif sín inn á twitter-síðu sína í síðustu viku.

Cole er kærður fyrir óviðeigandi skrif sem auk þess að hann hafi með þeim komið óorði á fótboltann. Hann fær tækifæri til að svara kærunni fyrir klukkan fjögur á fimmtudaginn.

Ashley Cole var þarna að tjá sig um mál liðsfélaga síns John Terry en enska sambandið tók lítið mark á vitnisburði Cole í kynþáttaníðsmáli Terry og Anton Ferdinand.

Cole hraunaði yfir starfsmenn enska sambandsins í kjölfarið á því að hann var sakaður um að hafa hagrætt vitnisburði sínum til að hjálpa Terry. Hann fjarlægði seinna færsluna en þá var hún komin út um allt.

Ashley Cole er í enska landsliðinu sem mætir San Marínó á föstudaginn og svo Póllandi fjórum dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×