Enski boltinn

Leeds er eins og ung Pamela Anderson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pamela Anderson.
Pamela Anderson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Enskir fjölmiðlar segja frá því að enska félagið Leeds United gæti verið komið með nýjan eiganda innan þriggja vikna en stjórnarformaðurinn Ken Bates er í viðræðum við eignarfélagið Gulf Finance House frá Barein. The Sun náði í skottið á David Haigh sem er aðstoðarframkvæmdastjóri Gulf Finance House.

„Leeds er eins og ung Pamela Anderson. Félagið er í frábæru standi, hefur mikla kosti og sér fram á frábæra framtíð," sagði David Haigh við The Sun.

„Eins og með öll stór kaup þá þurfum við að fara ítarlega yfir öll atriðin sem skipta máli og við erum að því núna. Við erum að nálgast endastöð og vonandi getum við klárað þetta innan þriggja vikna," sagði Haigh.

„Við erum á fullu að vinna að því að klára þennan samning en það eru starfshættir og vinnureglur sem við þurfum að fylgja. Þessi samningur mun ekki einungis hjálpa félaginu og næsta nágrenni þess heldur allri borginni," sagði Haigh.

Leeds United hefur ekki spilað í ensku úrvalsdeildinni síðan 2004 og var um tíma í ensku C-deildinni. Liðið er núna í 7. sæti í b-deildinni eftir tíu umferðir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×