Enski boltinn

Pallister: Rio Ferdinand á að vera í enska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rio Ferdinand.
Rio Ferdinand. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gary Pallister, fyrrum varnarmaður Manchester United, skilur ekki af hverju Roy Hodgson velur ekki Rio Ferdinand í enska landsliðið ekki síst nú þegar John Terry gefur ekki lengur kost á sér.

Rio Ferdinand er orðinn 33 ára gamall og hefur lítið sem ekkert verið með landsliðinu undanfarin ár. Hann missti af HM 2010 vegna meiðsla og var ekki valinn í hópinn fyrir EM í sumar vegna "fótboltalegra" ástæðna.

„Hann er ennþá besti enski varnarmaðurinn. Enska liðinu vantar leiðtoga í vörnina og þar gæti Rio komið sterkur inn," sagði Gary Pallister við BBC. Ferdinand hefur spilað 81 landsleik fyrir England og sækist sjálfur eftir því að spila á ný með landsliðinu.

„Ég er ekki að segja að við séum með slaka leikmenn í vörninni en við erum reynslulitlir nú þegar John Terry er hættur að gefa kost á sér," sagði Pallister.

Phil Jagielka hjá Everton og Joleon Lescott hjá Manchester City voru saman í miðri vörninni í síðasta landsleik og þótt að þeir séu báðir þrítugur þá hafa þeir ekki mikla landsleikjareynslu. Jagielka var að spila sinn 14. landsleik og Lescott er kominn með 23 leiki.

„Hann er nógu góður ennþá það er enginn vafi á því. Hann les leikinn vel og það er einn hans helsti kostur. Hann lætur þetta líta auðveldlega út. Hann þekkir leikinn út og inn. Ef hann heldur heilsu og verður í formi þá ætti hann að geta hjálpað liðinu á HM í Brasilíu þótt að hann sé þá orðinn 35 ára," sagði Pallister.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×