Enski boltinn

Agger: Við höfum verið betra liðið í nær öllum leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Agger.
Daniel Agger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Daniel Agger, miðvörður Liverpool og danska landsliðsins, var spurður út í dapurt gengi Liverpool í byrjun tímabilsins þegar hann hitti danska blaðamenn í gær en framundan eru leikir í undankeppni HM. Liverpool er aðeins með sex stig í fyrstu sjö leikjum sínum og er þegar orðið 13 stigum á eftir toppliði Chelsea.

„Við höfum ekki fengið þau stig sem við áttum skilið. Við getum öll verið sammála því og það er mitt mat að við höfum spilað nokkra góða leiki," sagði Daniel Agger en Liverpool-liðið hefur aðeins fengið tvö stig í fyrstu fjórum heimaleikjunum.

„Það hefur gengið vel að taka upp spilastílinn hjá nýja stjóranum og hraðar en við bjuggumst við. Við verðum að fara ná í stig og það skiptir okkur mestu máli núna. Leikstíllinn og baráttan hefur samt verið í góðu lagi," sagði Agger en Liverpool er að spila allt annan og betri fótbolta en undanfarin ár.

„Ef þið hafið séð okkur leiki á tímabilinu þá höfum við verið betra liðið í nær öllum leikjunum," sagði Agger sem nýverið skrifaði undir nýjan samning við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×