Enski boltinn

Mancini jafnaði afrek Sir Alex Ferguson í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini og Sir Alex Ferguson.
Roberto Mancini og Sir Alex Ferguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, stýrði City-liðinu í hundraðasta sinn í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en City hélt upp á tímamót stjórans með því að vinna 3-1 sigur á Queens Park Rangers.

Þetta var 62. sigur Mancini í ensku úrvalsdeildinni og hann jafnaði þar sem afrek Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United, sem stýrði einnig United-liðinu 62 sinnum til sigurs í fyrstu 100 leikjum sínum.

Manchester City hefur nú unnið 62 leiki, gert 19 jafntefli og aðeins tapað 19 leikjum undir stjórn Roberto Mancini og mark Edin Dzeko, sem kom City í 2-1 í leiknum, var það 200. sem City skorar undir stjórn Mancini.

Sir Alex Ferguson heldur reyndar upp á enn stærri tímamót á morgun en United mun þá leika þúsundasta deildarleikinn undir hans stjórn þegar það sækir Southampton heim. Manchester United hefur unnið 598 af þessum 999 leikjum undir stjórn Skotans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×