Enski boltinn

Sky Sports: Liverpool kaupir ekki fleiri leikmenn í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool.
Brendan Rodgers, stjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt heimildum Sky Sports eiga forráðamenn Liverpool ekki von á því að kaupa fleiri leikmenn til félagsins áður en lokað verður fyrir félagaskipti í kvöld.

Liverpool hefur verið að eltast við Clint Dempsey lengi vel og gerði tilboð í hann í dag. Það var sagt vera upp á fjórar milljónir punda en Fulham vildi fá sjö milljónir.

Liverpool var einnig sagt reiðubúið að láta Jordan Henderson eða Charlie Adam í skiptum en hvorugur hafði áhuga á því. Adam samdi svo við Stoke í dag.

Fulham tók boði Aston Villa í Dempsey fyrr í dag en kappinn hafði ekki áhuga á að fara þangað. Dempsey var einnig orðaður við Tottenham en ekki hafa borist frekari fregnir af því.

Liverpool hefur fengið fimm leikmenn til sín í sumar, þar af einn átján ára gutta í varaliðið. Hinir eru Fabio Borini, Joe Allen, Oussama Assaidi og Nuri Sahin sem kom sem lánsmaður frá Real Madrid.

Átta leikmenn aðalliðsins fóru frá Liverpool í sumar. Þeir eru Fabio Aurelio, Dirk Kuyt, Maxi Rodriguez, Alberto Aquilani, Craig Bellamy, Charlie Adam og þeir Andy Carroll og Jay Spearing sem voru lánaðir til annarra félaga í Englandi.

Lokað verður fyrir félagaskipti klukkan 22 að íslenskum tíma í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×