Erlent

Tannskemmdir gætu heyrt sögunni til í náinni framtíð

Nýtt efnasamband gæti leitt til þess að tannskemmdir heyri sögunni til í náinni framtíð.

Það eru tannlæknar í Chile sem hafa hannað þetta efnasamband en það er kallað Haltu 32 eða Keep 32 þar sem 32 tennur eru til staðar í munni fólks. Það sem þetta efnasamband gerir er að hefta bakteríur í munnvatni fólks í að breyta sykri í sýru sem svo aftur tærir glerunginn á tönnunum og myndar tannskemmdir.

Í frétt um málið í Daily Mail segir að efnasambandið hafi verið prófað á dýrum í sjö ár með góðum árangri og nú séu hafnar tilraunir með það á mönnum. Í ljós hefur komið að einn skammtur af Haltu 32 dugir til að verja glerung tanna tímunum saman.

Hugsanlega verður efnasambandið komið á markað strax á seinnihluta næsta árs eða fyrrihluta ársins 2014. Það yrði þá væntanlega blandað saman við tannkrem, munnskol eða tyggjó. Einnig væri hægt að blanda því beint í matvæli og koma þannig í veg fyrir tannskemmdirnar um leið og borðað er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×