Íslenski boltinn

Geir sér ekki eftir því að hafa ráðið Ólaf og kosið Blatter

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, var í ítarlegu viðtali hjá íþróttafréttamönnunum Henry Birgi Gunnarssyni og Eiríki Stefáni Ásgeirssyni í íþróttaþættinum á X-inu 977 í morgun.

Var farið um víðan völl í viðtalinu og meðal annars rætt um ársþingið sem fer fram um helgina, leyfiskerfið, áfengisneyslu á Laugardalsvelli, landsliðsþjálfaramál og forsetakosningar hjá FIFA svo fátt eitt sé nefnt.

"Ég verð að sitja uppi með það að ég hélt trúnaði við Ólaf og hélt hann vera rétta manninn í fjögur ár. Stigin töluðu svo sínu máli," sagði Geir í þættinum um Ólaf Jóhannesson, fráfarandi landsliðsþjálfara, en sér hann eftir því að hafa ráðið Ólaf á sínum tíma?

"Nei, ég sé ekki eftir því. Ég lít ekki á þessa ráðningu sem mistök. Ég sé ekki eftir þessum tíma."

KSÍ var á meðal fjölda þjóða sem ákvað að kjósa Sepp Blatter aftur sem forseta FIFA. Óhætt er að segja að Blatter sé afar umdeildur maður. Geir sagði á sínum tíma að hann fyldi "foringja vorum Platini" er hann ákvað að kjósa Blatter. Gerði hann það með hreinni samvisku?

"Ég gerði það vegna þess að ég hef ekki séð nein haldbær sönnunargögn um það að Blatter sjálfur hafi staðið fyrir einhverju misjöfnu. Blatter er af gamla skólanum og stjórnar þessu með harðri hendi. Ég geri mér grein fyrir því," sagði Geir sem gerir sér samt grein fyrir því að ímynd FIFA hafði beðið hnekki.

"Ímynd FIFA er verulega löskuð og ég geri mér grein fyrir því."

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×