Ekki er vitað um sex starfsmenn og ellefu farþega ítalska skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, sem strandaði við eyjuna Grigio aðfaranótt laugardags. Alls er því leitað að sautján manns í skemmtiferðaskipinu, en staðfest hefur verið að þrír hafi látist þegar skipið strandaði.
Þremur hefur verið bjargað úr skipinu, þar á meðal pari frá Suður-Kóreu. Skipstjórinn hefur verið handtekinn og er sakaður um að hafa yfirgefið skipið áður en síðasti farþeginn var farinn frá borði og borið ábyrgð á andláti þeirra sem létust.
Franskt par segir í viðtali við AP fréttastofuna að þau hafi séð skipstjórann í björgunarbáti með teppi til þess að hlýja sér, löngu áður en farþegunum var bjargað frá borði. Annar sagði skipstjórann hafa beðið á bryggjunni þegar fyrstu farþegarnir komu þangað eftir að hafa flúið sökkvandi skipið.
