Enski boltinn

Everton býður Fellaini nýjan samning

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Marouane Fellaini er hárprúður.
Marouane Fellaini er hárprúður. Getty Images

Everton mun bjóða belgíska landsliðsmanninum Marouane Fellaini nýjan samaning innan skamms. Hann kom til félagsins fyrir 15 milljónir punda frá Standard Liege árið 2008 og á enn tvö og hálft ár eftir af samningi sínum.

David Moyes hefur ekki fengið mikið fé til leikmannakaupa á undanförnum misserum og vill því umfram allt tryggja að sínir bestu leikmenn verði áfram hjá félaginu.

„Viðræður við Fellaini munu hefjast innan skamms því við viljum ekki hvetja önnur lið. Við viljum ekki að slúðrið hefjist um framtíð hans og vonandi verður gengið frá þessu innan skamms," segir Moyes sem er ekki sáttur með þann stimpil að Everton selji ávallt frá sér sína bestu leikmenn.

„Fólk lítur á klúbbinn okkar og heldur að við séum klúbbur sem selur leikmenn. Sannleikurinn er sá að við höfum aldrei þurft að selja okkar bestu leikmenn. Þeir sem hafa farið frá okkur vildu það sjálfir. Lokaákvörðunin hefur alltaf verið mín," segir Moyes en Chelsea hefur fylgst náið með framgöngu hins hárprúða Fellaini sem er 23 ára gamall.

„Stóru klúbbarnir sjá hversu vel Marouane stendur sig og það er ástæðan fyrir því að Chelsea fylgist grannt með honum. Hann kæmist í byrjunarliðið hvaða hvaða liði sem er," bætti Moyes við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×